Blue Flower

Er matsmannakerfið okkar ógnun við réttaröryggi

Er matsmannakerfið okkar ógnun við réttaröryggi

Grein eftir Ríkharð Kristjánsson, sem birt var í morgunblaðinu þann 22. mars síðastliðinn. 

 

Dr. –Ing Ríkharður Kristjánsson, Verkfræðistofunni EFLU

Í gallamálum sem rekin eru fyrir íslenskum héraðsdómsstólum eru þrír ríkjandi aðilar. Í fyrsta lagi eru það löglærðir héraðsdómarar, í öðru lagi eru það sérfróðir meðdómendur sem eiga að vera sérstaklega fróðir um viðfangsefni eins og það sem á að dæma um og eiga að aðstoða löglærða dómarann í faglegum efnum og í þriðja lagi eru það matsmenn en um þá ætlar höfundur að fjalla.

Þegar höfundur byrjaði að vinna sem meðdómari og matsmaður fyrir um fjörtíu árum, höfðu meðdómendur mikið vægi og völd og gátu breytt niðurstöðum matsmanna í endanlegum dómi, þætti þeim niðurstöður matsmanna vafasamar.

Þessi túlkum margra meðdómara á eigin völdum og ágæti átti ekki hljómgrunn meðal margra lögfræðinga og löglærðra dómara. Smám saman varð breyting hér á og áhrif meðdómenda minnkuðu verulega.

Í dag er oftast dæmt út frá fyrirliggjandi matsgerð hversu vitlaus sem hún kann að vera. Vitnað er gjarnan í dómum til þess lagaákvæðis að matsþolar gætu óskað eftir yfirmati telji þeir fyrsta matið ekki sanngjarnt.

Þetta táknar að dómurinn leggur í því tilfelli ekki faglegt mat á viðfangsefnið heldur segir einfaldlega; „undirmati hefur ekki verið hrundið með yfirmati og gildir það því óbreytt í máli þessu“. Það táknar að úrlausn dómsins hvað gallana áhrærir, viðgerð þeirra og kostnað og  raunar bótafjárhæð færist að mestu leyti yfir til matsmannanna.

Menn myndu því álykta að sérstakar kröfur væru gerðar til matsmanna hvað menntun, reynslu, þekkingu, innsýn í réttarkerfið og réttsýni varðar. Í raun er það hins vegar svo að nær engar formlegar kröfur eru gerðar til matsmannanna.

Höfundur hefur í árana rás séð ótrúlega margar illa unnar matsgerðir, byggða á vanþekkingu á viðfangsefninu og greinilegri hlutdrægni. Aleiga fólks er undir og miklar kröfur eru gerðar til dómaranna en engar til þeirra sem í raun ráða oft niðurstöðum dómsins að minnsta kosti peningalegri en það er hún sem skiptir aðilana mestu máli.

Þegar lögmaður í umboði skjólstæðinga sinna óskar eftir tilnefningu matsmanns hjá dómstólum fer fram þinghald þar sem málið er tekið fyrir. Lögmönnum er yfirleitt gefinn kostur á að koma sér saman um matsmann eða matsmenn en takist það ekki skipar dómari matsmann. Það munu vera til listar hjá dómstólum yfir matsmenn en hvernig þeir listar hafa orðið til eða líta út veit höfundur ekki.

En það eru fleiri sem hafa lista. Sumar lögfræðistofurnar hafa komið sér upp lista þar sem matsmenn hafa verið greindir og skipt í flokka. Þar má finna matsmenn sem eru hliðhollir matsbeiðendum sem borga þeim, vinna mikið fyrir tryggingafélög, telja verktaka glæpamenn, hlusta ekki á kerlingavæl, kosta lítið, eru okkar menn, o.s.frv.

Verra er að það eru komnir fram matsmenn sem ýmist þjóna lögfræðistofunum beint í gallamálum eða vinna fyrir dómskerfið sem matsmenn. Þetta eru aðilar sem lögfræðingarnir kalla „sína menn“ og reyna að fá skipaða sem matsmenn. Það þarf sterkan vilja til að bíta höndina sem fóðrar.

Önnur áhætta er fólgin í því að flestir matsmenn eru starfandi tæknimenn. Mikil hætta er á því að slíkir matsmenn meti ekki kerfisbundin ákvæði í hönnun eða framkvæmd sem sem galla hafi þeir sjálfir beitt slíkum aðferðum í fortíðinni.

Þessi skortur á formlegum kröfum til matsmanna verður til þess að sami matsmaðurinn fæst við sprungur í steyptu húsi, myglu í þaki, svignun gólfa, einangrun þaka, bætur í bruna, alkaliskemmdir í steypu, áhrif jarðskjálfta á grundun húsa, glerveggi, fasteignamöt, bílslys o.fl. o.fl. Enginn er sérfræðingur í öllum þessum málum og matsgerðirnar bera keim af því. Almenningur sem á oft allt sitt undir í ágreiningsmálum um galla á heimtingu á meiri fagmennsku.

Hvað er til ráða.

Höfundur telur að matsmenn eigi að undirgangast próf og fá formlega viðurkenningu sem matsmenn á vissum sviðum og undirgangast faggildingu á því sviði og færast þannig á lista hjá dómstólum. Þeir ættu að hafa menntun á sviðinu og langa starfsreynslu. Þeir ættu að fara á sérstök námskeið þar sem m.a. ætti að kenna siðfræði og grundvallaratriði réttarkerfisins auk matsfræða og Matsmannafélag Íslands hefur haldið úti námskeiðum um matsfræði.

Þeir ættu helst að að fást eingöngu við matsstörf á sínu sviði eftir að þeir öðlast faggildingu til að varast hagsmunaárekstra en það getur þó orðið bæði erfitt og raunar tvíeggjað.

Matsmenn mættu ekki vinna á víxl fyrir lögfræðistofur og dómskerfið og yrðu að velja á milli og ættu að eiga á hættu að missa réttindin við brot á þessu atriði. Alltaf ætti að skipa a.m.k. tvo matsmenn. Það hefur jákvæð áhrif á matsstörfin og dregur úr líkum á spillingu.

Dómari ætti alltaf að skipa matsmenn beint eftir að hafa fengið staðfestingu lögmanna á því að ekki liggi fyrir vanhæfi af einhverjum orsökum.

Evrópudómstólar munu hafa gert athugasemdir við val á sérfróðum meðdómendum og dómstólar á Íslandi munu hafa breytt verklagsreglum. Það er kominn tími til að taka á matsmannakerfinu sem raunverulega er rotið.